Lög Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK

Lög Vinagarðs á pdf formi

Heiti, heimili og tilgangur
1. gr.

  1. Félagið heitir Vinagarður leikskóli KFUM og KFUK. Heimili þess, varnarþing og skrifstofa er í Reykjavík.
  2. Félagið er eign KFUM og KFUK á Íslandi.

2. gr.

  1. Tilgangur félagsins er að reka leikskóla á kristilegum grunni. Skal hann starfa samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum um leikskóla og gildandi aðalnámskrá. Lögð skal áhersla á að efla kristið siðgæði og trúarlegt uppeldi.
  2. Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang þess.

Stjórn, stjórnarkjör, stjórnarfundir og verkefni stjórnar
3. gr.

  1. Stjórn skipa fimm aðalmenn og tveir varamenn. Þar af skipa stjórn KFUM og KFUK á Íslandi og Foreldrafélag Vinagarðs leikskóla KFUM og KFUK einn aðalmann hvor. Aðrir stjórnarmenn skulu vera félagar í KFUM og KFUK á Íslandi. Aðalmenn eru kjörnir til tveggja ára í senn og varamenn til eins árs.
  2. Stjórnin skiptir með sér verkum. Innan hennar skulu vera formaður, ritari og gjaldkeri. Formaður skal vera einn af kjörnum aðalmönnum.
  3. Launaðir starfsmenn Vinagarðs í föstu starfi og makar þeirra skulu ekki sitja í stjórn.
  4. Stjórnarseta er ólaunuð.
  5. Stjórn skal funda að jafnaði einu sinni í mánuði. Formaður boðar til funda. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar. Leikskólastjóri skal sitja fundi stjórnar. Framkvæmdastjóri KFUM og KFUK á Íslandi hefur einnig rétt til setu á stjórnarfundum og skal hafa aðgang að fundargerðum. Fundur er lögmætur þegar a.m.k. þrír stjórnarmenn mæta.
  6. Ákvarðanir stjórnar eru bindandi ef meirihluti viðstaddra stjórnarmanna ljær þeim atkvæði sitt.
  7. Ritari skal vinna og halda utan um fundargerðir stjórnarfunda. Hann tekur saman skýrslu stjórnar fyrir hvern aðalfund. Gjaldkeri hefur eftirlit með fjármálum félagsins og skal ásamt leikskólastjóra vinna fjárhagsáætlun.

4. gr.

  1. Stjórn félagsins fer með yfirstjórn þess milli félagsfunda og sér til þess að rekstur sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Stjórnin skal fylgjast með innra starfi leikskólans og veita því stuðning ásamt því að vinna starfs- og fjárhagsáætlun félagsins ár hvert. Leikskólastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins innan ramma samþykktrar starfs- og fjárhagsáætlunar.
  2. Stjórn félagsins annast ráðningu leikskólastjóra í samráði við framkvæmdastjóra KFUM og KFUK á Íslandi.

Aðalfundur

5. gr.

  1. Aðalfundur fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.
  2. Aðalfund skal halda eigi síðar en í marsmánuði ár hvert og skal boða til hans á sannanlegan og tryggilegan hátt.
  3. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.
  4. Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum í öllum málum, nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessu.
  5. Stjórn skipar tveggja manna kjörnefnd a.m.k. mánuði fyrir aðalfund og skal hún vera utan stjórnar. Nefndin setur upp kjörlista fyrir stjórnarkjör á aðalfundi. Fjöldi nafna á kjörlista skal vera að lágmarki með þeim hætti að stjórn sé ávallt fullsetin.
  6. Af kjörlistanum skal kjósa aðalmenn í stjórn til tveggja ára og tvo varamenn til eins árs. Haga skal kosningu þannig að á hverju ári gangi a.m.k. einn aðalmaður úr stjórn.
  7. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga til eins árs í senn og einn til vara.
  8. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa fullgildir félagar í KFUM og KFUK á Íslandi sem greitt hafa árgjald liðins árs.Stjórn félagsins fer með yfirstjórn þess milli félagsfunda og sér til þess að rekstur sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Stjórnin skal fylgjast með innra starfi leikskólans og veita því stuðning ásamt því að vinna starfs- og fjárhagsáætlun félagsins ár hvert. Leikskólastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri félagsins innan ramma samþykktrar starfs- og fjárhagsáætlunar.

6. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár kynnt.
  2. Lagðir fram til samþykktar endurskoðaðir reikningar sl. árs.
  3. Fjárhagsáætlun lögð fram til samþykktar.
  4. Kosning í stjórn sbr. a. lið 3. gr. og f. lið 5. gr.
  5. Kosning skoðunarmanna reikninga sbr. g. lið 5. gr.
  6. Önnur mál.

Lagabreytingar og slit
7. gr.
Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi. Tillögur til lagabreytinga skulu berast stjórn félagsins eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar a.m.k. tveimur vikum fyrir aðalfund.
Tillögur til lagabreytinga teljast samþykktar ef 2/3 hlutar greiddra atkvæða eru þeim fylgjandi. Lagabreytingar öðlast aðeins gildi ef stjórn KFUM og KFUK á Íslandi eða aðalfundur KFUM og KFUK á Íslandi samþykkir þær.
8. gr.
Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi. Samþykki 4/5 atkvæða aðalfundar þarf til afgreiðslu slíkrar tillögu. Komi til slita skulu eignir félagsins renna til KFUM og KFUK á Íslandi.

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi 22. mars 2023