Í dag, miðvikudaginn 7. ágúst, hófst starfið á Vinagarði aftur eftir sumarfrí þegar fjöldi barna mætti á vinnustaðinn sinn. Starfsfólkið mætti reyndar í gær til þess að undirbúa komu barnanna.
Eins og oft áður var sumarfríið nýtt í framkvæmdir og endurbætur á leikskólanum. Þeim er ekki alveg lokið og má því búast við lítilsháttar raski á næstunni. Framkvæmdirnar að þessu sinni snúast annars vegar um endurbætur á fatahengi á Uglugarði þar sem allt er endurnýjað og sett upp ný hólf fyrir börnin. Þá er unnið að endurbótum á leiksvæði leikskólans en nokkur leiktæki voru orðin gömul og því ekki lengur nothæf. Verið er að afmarka stórt sandsvæði og á næstu vikum verða sett upp ný leiktæki í stað þeirra eldri.
Annars er margt spennandi framundan, ekki síst færsla á milli deilda og aðlögun nýrra barna. Starfsfólk og stjórn leikskólans eru spennt fyrir komandi vetri og hlakka til samstarfs við foreldra.